Fyrir mér er umhverfisvernd mikilvæg. Þess vegna hef ég lagt mig fram við að flokka allt sorp eins og ég get, en það er oftar en ekki flókið að átta sig á því hvert sorpið á að fara og það krefst stundum fyrirhafnar að koma því á réttan stað. Ég viðurkenni það fúslega að þó svo að ég sé áhugamaður um þetta þá hef ég stundum ekki minnstu hugmynd um það hvert sorpið á að fara.
Eitt helsta vandamálið við sorpflokkun hefur verið ósamræmi á milli sveitarfélaga. Það er ekki eins flokkun í Kópavogi og Reykjavík og það er jafnvel ósamræmi milli flokkunar á heimilum og í fyrirtækjum í Reykjavík. Þetta verður til þess fólk setur sorp í rangar tunnur í góðri trú. Í tíð VG í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á síðasta kjörtímabili var því komið í gegn að öll sveitarfélög á landinu ættu að taka upp samræmda flokkun. Þetta er gífurlegt framfaraskref og mun taka gildi um næstu áramót.
Á hverju ári framkvæmir Sorpa húsasorpsrannsókn þar sem tekin eru sýni úr sorpi sem er safnað frá heimilum, fyrirtækjum, grenndarstöðvum og endurvinnslustöðvum. Niðurstöðurnar úr þeim rannsóknum sýna fram á að ég er ekki einn um að vera í vafa um hvernig rétt er að flokka. Það kemur í ljós að það er óhemju mikið magn af endurvinnanlegu sorpi sem fer í almennt heimilissorp og svo er ótrúlega mikið magn af almennu sorpi sem fer með flokkuðu plasti, pappír o.fl. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að við erum að urða verðmæti sem ekki eru flokkuð og svo erum við að spilla gæðum flokkaða sorpsins. Vel flokkað sorp eru verðmæti sem er hægt að selja í endurvinnslu en illa flokkað sorp hefur kostnað í för með sér. Við erum því að fara illa með verðmæti því að sorp er ekki rusl heldur hráefni; það þarf bara að flokka það og flokkun á að meika sens og vera einföld.
Gas- og jarðgerðarstöðin GAJA er risin á Álfsnesi sem er mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfinu. Það hafa verið byrjunarörðuleikar við rekstur þessarar stöðvar, en ef við ætlum að ná framförum þá þarf að taka stökkið. Þrátt fyrir að það hafi verið hægt að ná 85-90% hreinni moltu með vélrænni flokkun þá dugar það ekki til. Það er m.a. vegna þessa sem farið var að innleiða söfnun á lífrænu sorpi frá öllum heimilum í borginni, en stefnt er að því að brúna tunnan verði komin á öll heimili fyrir lok þessa árs. Þegar GAJA fer að taka við forflokkuðu lífrænu sorpi þá megum við gera ráð fyrir því að hún muni framleiða mikið magn af hágæða moltu sem annars yrðu urðuð á Álfsnesi engum til gagns.
Sorpa hefur fengið mikla gagnrýni á undanförnum árum, en við getum óhrædd haldið því fram að það hafi orðið viðsnúningur í rekstri þessa mikilvæga byggðasamlags með Líf Magneudóttur sem stjórnarformann. Líf hefur líka verið óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir sem miða að því innleiða hringrásarhagkerfið sem eru nauðsynlegar til þess að bregðast við loftslagsbreytingum. Vinstri græn vilja ganga lengra og gera Sorpu að samnefnara fyrir nýsköpun og þekkingu í umhverfismálum og á hringrásarhagkerfinu. Núna er búið að undirbúa jarðveginn og við horfum fram á bjartari tíma.
Höfundur Ástvaldur Lárusson er frambjóðandi í 10. sæti fyrir Vinstri græn í Reykjavík.