Lög UVG

1.gr.
Hreyfingin heitir Ung vinstri græn.

2.gr.
Varnarþing hreyfingarinnar er í Reykjavík.

3.gr.
Aðild að hreyfingunni eiga félagar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem eru 35 ára og yngri. Aukinheldur er aðild að hreyfingunni heimil öllum 35 ára og yngri sem vilja starfa með henni en eru ekki félagar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.

4.gr.
Markmið hreyfingarinnar er að vera umræðu- og samstarfsvettvangur ungra vinstrisinna, femínista, umhverfisverndarsinna og friðarsinna. Einnig að veita flokksforystu sem og ráðandi öflum í samfélaginu pólitískt aðhald með opinni umræðu og aðgerðum. Jafnframt skal hreyfingin gæta sameiginlegra hagsmuna félaga sinna eftir því sem þurfa þykir og ljá ungu fólki öfluga rödd í öllum málum sem koma á borð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hreyfingin skal vinna að fullu kvenfrelsi. Í því skyni skal hreyfingin í hverju því starfi sem fer fram innan hennar gæta þess að karlar séu ekki í meirihluta .

5.gr.
Allir félagar njóta sömu réttinda í hvívetna. Hver félagi hefur eitt atkvæði komi til atkvæðagreiðslu um mál í starfi hreyfingarinnar. Á það við um hvert það starf sem er á vegum hreyfingarinnar eða fulltrúa hennar. Aðrir en félagar hafa málfrelsis- og tillögurétt á öllum fundum hreyfingarinnar nema kveðið sé á um annað í lögum þessum. Á stjórnafundum hafa aðeins atkvæðisrétt fulltrúar þeirra stjórna sem við á samkvæmt lögum þessum. Að jafnaði skulu atkvæðagreiðslur fara fram með handauppréttingu en sé þess óskað skal fara fram leynileg atkvæðagreiðsla. Í öllum atkvæðagreiðslum gildir einfaldur meirihluti, nema annað sé tekið fram í lögum þessum um þá tegund atkvæðagreiðslu sem um er rætt.

6.gr.
Allir fundir á vegum hreyfingarinnar skulu vera opnir. Sé það þó samhljóða mat landstjórnar að sérstakar aðstæður krefjist þess er heimilt að hafa landstjórnarfundi lokaða. Fundir og viðburðir skulu opinberlega auglýstir með a.m.k. tveggja daga fyrirvara, nema kveðið sé á um annað. Ofangreint á ekki við um starfsfundi framkvæmdastjórnar.

7.gr.
Allir félagar eiga rétt til þess að stofna málefnahóp, starfi hann í samræmi við lög hreyfingarinnar. Ekki þarf sérstakt samþykki fyrir stofnun málefnahóps en þeir skulu skráðir í samræmi við 21. grein þessara laga.

8.gr.
Óheimilt er að birta félagatal opinberlega.

9.gr.
Opnir félagafundir taka fyrir og úrskurða um misbresti í framkvæmd og/eða brot á lögum og samþykktum hreyfingarinnar. Niðurstaða félagafundar er endanleg. Framkvæmdastjórn skal boða til opins félagafundar að ósk minnst 5% félaga hreyfingarinnar, í samræmi við ákvörðun landstjórnar eða að eigin frumkvæði. Erindi til opins félagafundar skulu berast öllum félögum skriflega og gerð opinber áður en þau eru tekin til umfjöllunar. Félagafundi ber að kanna mál til hlítar og ræða við alla hlutaðeigandi nema þeir synji því að gera grein fyrir máli sínu. Gæta skal þess að afgreiðsla mála dragist ekki lengur en í mánuð hið mesta.

10.gr.
Landsfundur fer með æðsta vald í störfum hreyfingarinnar. Landsfundur er opinn öllum félögum. Landsfundur samþykkir fundarsköp og skal fundinum stjórnað samkvæmt þeim. Landsfundarfulltrúar geta borið fram tillögur um hvert það mál sem þeir óska eins lengi og slíkt stangast ekki á við lög hreyfingarinnar. Skal fundurinn taka afstöðu til allra mála samkvæmt þeim fundarsköpum sem samþykkt hafa verið. Kjörgengi og kosningarétt á landsfundi hafa allir félagar. Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti.

11.gr.
Landsfund skal halda árlega að hausti. Að jafnaði skal framkvæmdastjórn boða til landsfundar. Landstjórn eða 5% félaga hreyfingarinnar geta þó boðað til landsfundar enda sé framkvæmdastjórn óstarfhæf eða rökstuddur grunur um vanhæfi hennar liggi fyrir. Til landsfundar geta boðað annað hvort stjórn eða 5% félaga hreyfingarinnar. Landsfundur telst löglegur ef boðað er til hans opinberlega og hann auglýstur á vefsíðu hreyfingarinnar.

12.gr.
Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á framkvæmd landsfundar. Tillögur til ályktana, lagabreytinga og stefnuskrárbreytinga skulu hafa borist  framkvæmdastjórn eigi síðar en viku fyrir upphaf landsfundar.  Framkvæmdastjórn skal birta fyrirliggjandi tillögur á vefsíðu hreyfingarinnar um leið og skilafrest lýkur. Þá skal framkvæmdastjórn kynna fyrirliggjandi tillögur á opnum fundi í vikunni fyrir landsfund.

13.gr.
Framkvæmdastjórn, landstjórn eða 5% félaga geta kvatt saman aukalandsfund hvenær sem nauðsyn krefur. Um aukalandsfund gilda að öðru leyti sömu reglur og um landsfund.

14. gr.
Landstjórn og framkvæmdastjórn bera ábyrgð á og hafa umsjón með starfi hreyfingarinnar milli landsfunda. Boðaðir fundir stjórna eru lögmætir þegar að meirihluti stjórnafulltrúa er viðstaddur. Gæta skal lýðræðis og jafnréttis innan stjórna í hvívetna og því er enginn stjórnarfulltrúi æðri öðrum.

15. gr.
Landstjórn fer með æðsta vald hreyfingarinnar milli landsfunda. Hún skal hafa yfirumsjón með málefnastarfi hreyfingarinnar og vísa ákvörðunum sínum til framkvæmdastjórnar til framkvæmda. Landstjórn getur hnekkt ákvörðunum framkvæmdastjórnar. Landstjórn skal funda mánaðarlega hið minnsta nema sérstakar aðstæður hamli því. Innrastarfsfulltrúi boðar til landstjórnarfunda og stýrir þeim en aðalritari ritar fundargerðir þeirra.

16.gr.
Framkvæmdastjórn sér um daglegt starf og rekstur hreyfingarinnar. Hún er ályktanabær að meirihluta fulltrúa viðstöddum og ber ábyrgð á almannatengslum, viðburðum, samstarfi, útgefnu efni og innra starfi hreyfingarinnar. Framkvæmdastjórn svarar til landstjórnar og skal vísa ágreiningsefnum sínum til úrskurðar landstjórnar. Framkvæmdastjórnarfulltrúar skulu eiga sæti í landstjórn. Formaður nýrrar framkvæmdarstjórnar boðar til fyrsta framkvæmdastjórnarfundar.

17.gr.

Á fyrsta fundi nýrrar framkvæmdastjórnar skal stjórn skilgreina hlutverk framkvæmdarstjórnarfulltrúa og setja sér verk- og vinnulagsreglur. Framkvæmdastjórn ákveður á fyrsta framkvæmdastjórnarfundi hversu oft stjórnin mun funda. Miðað skal við að framkvæmdarstjórnarfundir séu ekki færri en 10 á ári.

18. gr.
Segi stjórnarfulltrúi sig úr framkvæmdastjórn skal boðað til landstjórnarfundar og skal landstjórn kjósa fulltrúa til að fullmanna framkvæmdastjórn. Skal þá einungis kjósa í þau embætti sem þarf til að fullmanna stjórnir.

19.gr.
Landsfundur kýs hreyfingunni stjórnir. Kjörstjórn kosin í byrjun fundar skal hafa umsjón með kosningum en allir félagar sem gefið hafa kost á sér áður en gengið er til kosninga skulu vera í kjöri til framkvæmdastjórnar. Allir landsfundarfulltrúar skulu vera í kjöri til landstjórnar auk þeirra félaga sem ekki sitja landsfund en hafa gefið sérstaklega kost á sér nema félagar sem hlotið hafa kjör í framkvæmdastjórn.

Fyrirkomulag stjórnakosninga á landsfundi skal vera sem hér segir. Fyrst skal gengið til kosningar formanns. Hljóti enginn meirihluta atkvæða skal fara fram önnur umferð á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hljóta í fyrri umferðinni. Þegar niðurstöður úr formannskjöri liggja fyrir skal gengið til kjörs um sex stjórnarfulltrúa í framkvæmdastjórn og skal hvert atkvæði telja sex nöfn. Að talningu lokinni skal kjörstjórn gæta þess að ekki fleiri en helmingur framkvæmdastjórnarfulltrúa séu karlkyns og beita til þess kynjakvóta, þurfi þess. Er niðurstaða framkvæmdastjórnarkjörs liggur fyrir skal kjörstjórn tilkynna fundinum niðurstöður kosninga.

Mega kjörnir framkvæmdastjórnarfulltrúar þá víkja af fundi og sammælast um verkaskiptingu, leggja fram uppstillingartillögu sem borin skal upp til samþykkis. Sé sú leið ekki talin æskileg mega kjörnir framkvæmdastjórnarfulltrúar fá tvær mínútur hver til að tilkynna fundinum eftir hvaða embættum stjórnar þau sækist. Þá skal gengið til kosninga um embætti framkvæmdastjórnar sbr. 17. gr. V. kafla þessara laga. Notast skal við atkvæðaseðla merktum öllum embættum stjórnar og landsfundarfulltrúar raða nöfnum kjörinna framkvæmdastjórnarfulltrúa á embætti. Skal úthlutun embætta á grundvelli kosninganna fara eftir verklagsreglum sem landsfundur hefur samþykkt fyrir kosningu. Framkvæmdastjórn er heimilt að skipta með sér embættum hvenær sem er á starfsárinu ef þurfa þykir en skal vísa því til úrskurðar landstjórnar. Síðan skal gengið til kjörs um sjö landstjórnarfulltrúa og skal hvert atkvæði telja sjö nöfn. Að talningu lokinni skal kjörstjórn gæta þess að ekki fleiri en helmingur framkvæmdastjórnarfulltrúa séu karlkyns og beita til þess kynjakvóta, þurfi þess. Kjörstjórn skal að því loknu tryggja að þeir landsfundarfulltrúar sem hlotið hafa kjör vilji taka sæti í landstjórn. Nú hlýtur landsfundarfulltrúi landstjórnarkjör er vill ekki taka sæti. Þá skal kjörstjórn veita þeim landsfundarfulltrúa sem flest atkvæði hefur hlotið án þess að ná landstjórnarkjöri sæti viðkomandi, þó með tilliti til þess að ekki fleiri en helmingur landstjórnarfulltrúa séu karlkyns. Hafi fleiri en einn landsfundarfulltrúi hlotið landstjórnarkjör án þess að vilja taka sæti skal ferlið endurtekið uns landstjórn er fullmönnuð. Hafi ekki fleiri hlotið atkvæði til landstjórnarsetu skal valið af handahófi úr fundargestum. Er endanleg niðurstaða landstjórnarfulltrúakjörs liggur fyrir skal kjörstjórn tilkynna fundinum niðurstöður kosninga.

20. gr.
Framkvæmdastjórn skal gæta þess að fræðsluefni um lög og skipulag hreyfingarinnar séu öllum aðgengilegar. Sérstaklega skal kynna starfsemi hreyfingarinnar fyrir nýjum félögum.

21.gr.
Málefnahópar vinna málefnastarf hreyfingarinnar sem lögð er til samþykktar eða synjunar á landsfundi. Á fundum málefnahópa skulu rædd þau málefni er þeim er falið að taka fyrir auk þeirra málefna sem hópurinn ákveður sjálfur, falli þau undir verksvið hans.

22.gr.
Málefnahópar setja sér verklagsreglur og skal reynt til hins ítrasta að ná samstöðu um málefni. Rædd eru málefni fundarins og að honum loknum valdir fulltrúar til þess að vinna tillögur til afgreiðslu. Fulltrúum er skylt að afla sér bestu gagna, reynslu og þekkingar og vanda ætíð vinnu við gerð tillagna.

23.gr.
Málefnahópur velur sér ritara sem heldur utan um gögn málefnahópsins, fundargerðir, upptökur af fundum og annað efni sem safnast í störfum hópsins. Fundarritari skal valinn í upphafi hvers fundar.

24.gr.
Tillögur málefnahópa skulu vera skriflegar og sendar landstjórn sem leggur þær fyrir næsta landsfund, nema frestur til að skila inn tillögum fyrir landsfund sé útrunninn.

25.gr.
Skráning málefnahóps þarf að berast framkvæmdastjórn skriflega og fylgja skal stutt lýsing á viðfangsefni hópsins. Landsfundur eða opinn félagafundur getur ákveðið að málefnahópur skuli lagður niður. Sé málefnahópur stofnaður skal semja tímaáætlun um starf hópsins og nánari markmið málefnahópsins á fyrstu fundum hans.

26.gr.
Vinna skal að framgangi Ungra vinstri grænna og stefnu hreyfingarinnar á landsvísu. Í því skyni skal framkvæmdastjórn hafa forgöngu um að tengiliðanet hreyfingarinnar sé starfrækt í sem flestum sveitarfélögum. Tengiliðanet Ungra vinstri grænna mynda öll skráð tengiliðaráð hreyfingarinnar auk allra skráðra tengiliða hennar.

27.gr.
Allir félagar eiga rétt á því að vera skráðir sem tengiliðir í tengiliðaneti Ungra vinstri grænna. Innrastarfsfulltrúi í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar fer með skráningu tengiliða og umsjón tengiliðanets. Tengiliðir starfa innan þess sveitarfélags er þeir hafa lögheimili eða aðsetur, búi þeir fjarri lögheimili sínu. Ef fleiri en einn tengiliður eru skráðir í sveitarfélagi mynda þeir tengiliðaráð Ungra vinstri grænna í viðkomandi sveitarfélagi.

28.gr.
Tengiliðir hafa heimild til að sjá um starf hreyfingarinnar í sínu sveitarfélagi. Tengiliðir skulu starfa í samráði við stjórnir hreyfingarinnar og hafa samskipti við hana fyrir milligöngu innrastarfsfulltrúa. Tengiliðir mega ekki birta efni, halda viðburði eða ráðstafa fé hreyfingarinnar án samþykkis tengiliðafulltrúa.

29.gr.
Tengiliðaráð eru mynduð af öllum skráðum tengiliðum í hverju sveitarfélagi. Tengiliðaráð skulu funda reglulega um starf sitt í sveitarfélaginu og taka ákvarðanir í sameiningu. Tengiliðir í sveitarfélagi þar sem skilyrði um tengiliðaráð sbr. 25. greinar þessa laga eru uppfyllt skulu starfa innan ráðsins og er óheimilt að kljúfa sig frá skráðu tengiliðaráði sveitarfélagsins eða mynda annað tengiliðaráð innan sama sveitarfélags. Framkvæmdastjórn getur þó heimilað einstökum tengiliðum og/eða tengiliðaráðum að sameinast til samvinnu þvert á sveitarfélagamörk enda fari viðkomandi tengiliðir og/eða tengiliðaráð þess á leit við innrastarfsfulltrúa.

30.gr.
Tengiliðaráð mynda sér eigin verklagsreglur. Fundir tengiliðaráða skulu starfa eftir samþykktum verklagsreglum og ræður einfaldur meirihluti í öllum atkvæðagreiðslum.

31.gr.
Framkvæmdastjórn hreyfingarinnar ber ábyrgð á fjárreiðum hennar. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift viðburðastjóra eða  aðalritara nægileg til þess. Bæði framkvæmda- og landstjórnarfulltrúargeta farið fram á að fjallað sé um einstakar skuldbindingar á viðeigandi stjórnarfundi áður en þær eru samþykktar.  Sé farið fram á slíkt þarf samþykki meirihluta viðeigandi stjórnar til.

32. gr.
Starf hreyfingarinnar skal miðast við það að allir félagar geti tekið þátt í því.  Því skal þess gætt eftir fremsta megni að allir viðburðir á vegum hreyfingarinnar fari fram á stöðum þar sem að fullt aðgengi er til staðar. Jafnframt skal taka tillit til mismunandi aðstæðna félaga, m.a. hvað varðar táknmálstúlkun og aðra sambærilega þjónustu.

33. gr.
Lögum hreyfingarinnar má einungis breyta á landsfundi. Telst breyting á lögum samþykkt ef hún hlýtur 2/3 hluta greiddra atkvæða á landsfundi. Ákvörðun um að leggja niður hreyfinguna má einungis taka á landsfundi og þarf til þess samþykki allra greiddra atkvæða.

34. gr.
Lög þessi öðlast gildi á landsfundi Ungra vinstri grænna 14. september árið 2013 og leysa því eldri lög hreyfingarinnar frá árinu 2000 af hólmi.