Setjum börnin í forgang

Það eru forréttindi að búa í Mosfellsbæ, hér eru falleg græn svæði sem bæta lífsgæði bæjarbúa.

Það er VG ofarlega í huga að vernda og viðhalda bæjarbragnum og náttúrunni hér en það þarf jafnframt að horfa á grænu svæðin sem velferðar- og heilbrigðismál. Aðgengismál þurfa að vera í forgangi og tryggja þarf að allir bæjarbúar hafi aðgang að grænum svæðum, enda lýðheilsubætandi. Bæta þarf hjólastólaaðgengi og sjá til þess að aðgengi ólíkra hópa sé í fyrirrúmi.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag, hér er gott að búa með börn. Á síðastliðnu kjörtímabili hafa miklar framfarir orðið í bænum, leikskólaplássum var fjölgað, börn frá 12 mánaða aldri fá leikskólapláss ásamt því að leikskólagjöld hafa lækkað umtalsvert síðustu árin.

Vinstri græn vilja styðja enn betur við foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi, við leggjum til að styrkur sem nemur brú milli dagforeldris og leikskóla geti farið beint til foreldra á meðan beðið er eftir plássi. Jafnframt viljum við halda áfram að lækka leikskólagjöld og að endingu verði leikskólar í Mosfellsbæ gjaldfrjálst skólastig.

Við viljum stuðla að því að öll börn sitji efnahagslega við sama borð, meðal annars með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hærri frístundastyrk. VG vill bæta velferðarkerfi Mosfellsbæjar og setja velferð barna í forgang.

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir,
skipar 2. sæti V-listans í kosningunum 14. maí