Ung vinstri græn krefjast þess að ríkisstjórn svari Maní og fjölskyldu hans með staðfestingu um dvalarleyfi á Íslandi.
Maní er 17 ára strákur sem er flóttabarn frá Íran. Eftir að hann flutti til Íslands hefur hann komið út sem trans strákur fyrir foreldrum sínum og fólki í kringum hann. Maní hefur ekki haft tækifæri til að koma út í öruggu umhverfi fyrr en núna.
Stuðningur sem hann fær hér á Íslandi og frá íslensku samfélagi er stuðningur sem hann fær ekki ef hann er sendur úr landi. Maní og foreldrar hans óttast um líf sitt. Að senda Maní úr landi er að stofna öryggi hans og líf í hættu. Trans fólk verður fyrir miklum fordómum og ofbeldi allsstaðar í heiminum. Hundruðir trans einstaklinga eru myrtir á ári hverju. Á Íslandi er ástandið betra en á mörgum öðrum stöðum í heiminum og því er það skylda okkar sem samfélag að standa við bakið á og styðja trans fólk, og þá sérstaklega trans fólk á flótta. Rannsóknir hafa sýnt verra ástand geðheilsu á meðal trans fólks en sís fólks og hefur hátt hlutfall trans fólks tekist á við alvarlegt þunglyndi og kvíða. Maní þarf að hafa aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og á Íslandi hefur hann gott aðgengi að henni.
Þetta mál er ekki einsdæmi. Mörgum börnum og ungmennum, í svipaðri stöðu og Maní, er endurtekið brottvísað úr landi. Þessi hópur ungs fólk sem er hvað verst jaðarsettur á Íslandi, hinsegin flóttafólk og hælisleitendur þurfa stuðning og aukin réttindi. Þau eru ekki varin í íslensku réttarkerfi og það þarf að laga samstundis. Óréttlát framkoma við flóttafólk og hælisleitendur er til skammar og á ekki að líðast.
Samtökin ‘78, No Borders, félagið Réttur barna á flótta og hinsegin samfélagið hefur staðið að gríðarlega mikilvægri baráttu fyrir og stuðningi við fjölskylduna. En þau eiga ekki að þurfa að standa í baráttunni ein, þetta er jafnréttismál sem kemur öllum við.
Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna, þess er krafist af ykkur að funda um mál Manís.
Hann á heima á Íslandi