Aðgengi fyrir alla?

Árið 2016 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í fyrstu grein samningsins er kveðið á um að markmið hans sé að efla, verja og tryggja að fatlað fólk skuli njóta allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.

  1. grein samningsins:

Aðgengi

  1. Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til:
  2. a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar á meðal skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisstofnana og vinnustaða.

Hvernig er aðgengið?

Það þarf ekki að fara langt á Sauðárkróki til að sjá að margar gönguleiðir eða gangstéttar uppfylla ekki kröfur fyrrnefnds samnings. Margar gangstéttir eru erfiðar yfirferða hvort sem farið sé um á hjólastól eða göngugrind. Það getur verið áskorun að fara um þær með barnavagn.

Gangstéttirnar eru margar hverjar þröngar, sprungnar, hrjúfar og hallandi. Vandinn eykst enn þegar fara verður yfir götur þar sem hæðarmunur er mikill. Kantsteinar eru margir háir og án niðurfellinga. Svipaða sögu má segja á Hofsósi og í Varmahlíð, þ.e.a.s. ef gangstéttar eru yfirleitt til staðar á þeim stöðum.

Sé aðalskipulag sveitarfélagsins skoðað sést að þessir hlutir eru komnir á blað og því ekki hægt að skrifa þetta á hugsunaleysi, heldur er greinilega ekki pólitískur vilji meirihluta til að framkvæma eða hafa þessar úrbætur í forgangi. Meirihluti hefur haft síðustu 8 ár til þess að bregðast við en ekkert hefur gerst. Það verður að framkvæma og tryggja að aðgengismál séu eins og best verður á kosið.

Í aðalskipulaginu mætti þó orðalagið tilgreina fleiri en „gangandi vegfaranda“ en þar segir:

“Megin markmið fyrir samgöngur á Sauðárkróki eru að tryggja öryggi allra vegfarenda og styðja sérstaklega við sjálfbæra ferðamáta með góðu stíganeti og aðlaðandi umhverfi fyrir gangandi og hjólandi.”

En staðan er önnur:

  • Gangstéttar við Aðalgötu eru mjóar og þrep við útidyr taka yfir hluta þeirra. Gangstéttar þurfa að vera nægilega breiðar til að auðvelt sé að ganga um þær með barnavagn og mæta öðrum vegfarendum. Með slíkum aðgerðum og hönnunarlausnum má jafnframt draga úr umferðarhraða.
  • Leggja þarf áherslu á að gefa gangandi vegfarendum aukið rými og vægi í samgöngukerfi bæjarins s.s. með breikkun gangstétta þar sem þörf er á, t.d. í gamla bænum og meðfram Skagfirðingabraut.
  • Meðfram Skagfirðingabraut og öðrum tengibrautum eru aðgreindir göngustígar, en hefðbundnar gangstéttir eru meðfram öðrum götum. Þörf er á endurbótum á gangstéttum á nokkrum stöðum innan Sauðárkróks og huga þarf að breikkun gangstétta samhliða viðhaldi þeirra.

Því miður er sveitarfélagið Skagafjörður mjög aftarlega á merinni í aðgengismálum sem eru alvarleg brot á mannréttindum fólks. Það þurfa allir að ákveða að aðgengi sé forgangsmál. Fötlun er partur af fjölbreytileika fólks. Samfélagið þarf að aðlaga sig og gera ráð fyrir þörfum margbreytileikans. Það þarf oft ekki stórar og fjárfrekar aðgerðir til að stór auka lífsgæði fólks. Bara það að aðgengi að upplýsingum hjá sveitarfélaginu verði betri, væri mikið framfaraskref. Að foreldrar fatlaðra barna geti fengið með auðveldum hætti upplýsingar um þau réttindi sem barn þeirra á í sveitarfélaginu og að réttindum þeirra séu að sjálfsögðu fylgt eftir í hvívetna. Eins og staðan er í dag þá er t.d. heimahjúkrun á kvöldin ekki til boða fyrir foreldra með fötluð börn, aldraða né þeirra sem á þurfa að halda.

Það á ekki að vera endalaus barátta fyrir foreldra að aðgengi hjá fötluðu barni þeirra sé framfylgt samkvæmt lögum, að þurfa að berjast fyrir því að koma barni sínu inn í leikskóla, grunnskóla eða að fá vistun eftir skóla. Það eru næg önnur verkefni sem fylgja því að annast fatlað barn.

Hvernig ætti aðgengið að vera?

Öll mannvirki sveitarfélagsins eiga að hafa aðgengi fyrir alla.

Sveitarfélagið ætti að ráða aðgengisfulltrúa en ríki og sveitarfélög hafa ákveðið að taka höndum saman um að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo dæmi séu tekin. Þetta er mjög tímabær samvinna þar sem úrbóta er sannarlega þörf víða.

Tilgangur þessa átaks er að uppfylla markmið í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra um að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra.

Hlutverk aðgengisfulltrúa er að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutist aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur. Vegna þessa átaks þá er það Jöfnunarsjóður sem greiðir stóran hluta kostnaðar við slíkan aðgengisfulltrúa.

Aðgengi fyrir alla ætti að vera sjálfsagður hlutur en er það því miður ekki í sveitarfélaginu Skagafirði. Það er hægt að laga sé viljinn fyrir hendi. Sá vilji er svo sannarlega til staðar hjá Vinstri Grænum og Óháðum í Skagafirði. Er hann til staðar hjá þér?

Hrólfur Þeyr Hlínarson, foreldri fatlaðs barns
Skipar 6. sæti á lista VG og Óháðra í Skagafirði