Ályktanir fyrir landsfund UVG 2024

Ályktun um blóðbaðið fyrir botni Miðjarðarhafs 

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, fordæmir og mótmælir með öllu þjóðarmorðinu á Gaza, framferði Ísraelshers á svæðinu og aðild Bandaríkjanna sem og annarra Vesturlanda að blóðbaðinu. Ísrael hefur í 76 ár stundað landrán á palestínsku landi og brotið gróflega á mannréttindum Palestínumanna. Síðasta ár hefur einkennst af svívirðilegum hernaði gegn almenningi á Gaza, þar sem íbúar heimsbyggðarinnar hafa þurft að fylgjast með morðum á almennum borgurum, að stórum hluta konum og börnum, fjölskyldum, sjálfboðaliðum og svo mætti lengi telja. Framferði Ísraels á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum, þar sem Palestínumenn búa við ofbeldi, ofríki og manngerða hungursneyð, er viðurstyggilegt. Um er að ræða landránsnýlendustefnu.

Ung vinstri græn ætla halda áfram að hafa hátt og mótmæla þessum hryllingi. Á meðan styðja Vesturlönd Ísrael með vopnum og pólitískum stuðningi, þrátt fyrir stríðsglæpi sem sjást í beinni útsendingu. Þjóðarmorðið hefur teygt sig inn á fleiri svæði í formi stríðs, Ísraelar hafa ráðist á Líbanon og Íran og það þarf að stíga inn í aðstæður með róttækum aðgerðum. Svar heimsbyggðarinnar skiptir gífurlega miklu máli þegar kemur að þjóðarmorðum. Við fordæmum einnig umhverfisáhrif þjóðarmorðsins og stríðsátakanna en sprengingar og vopnaburður hafa skelfileg áhrif á umhverfið og loftslag jarðar. Þjóðarmorðið hefur þannig áhrif á loftgæði, vatnsgæði og jarðveginn og á allar lífverur sem þar búa og eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Koltvísýringslosun á aðeins fyrstu 120 dögunum fór yfir árlegt kolefnisspor ýmissa þjóða heims.

Það er nauðsynlegt að Ísland taki afstöðu, styðji vopnasölubann og viðskiptaþvinganir gegn Ísrael og styðji við málsókn Suður-Afríku á hendur Ísraelsmönnum. Landsfundurinn krefst tafarlausra og afgerandi viðbragða alþjóðasamfélagsins, kallar eftir vopnahléi og að Ísrael fari eftir alþjóðalögum. Að lokum áréttar fundurinn skyldu Íslands til að hjálpa flóttamönnum frá Palestínu og kallar eftir að Ísrael og Bandaríkin verði dregið til ábyrgðar og að vopnaflutningur t.d. frá Bandaríkjunum verði stöðvaður. Við fordæmum þjóðarmorðið sem og öll þjóðarmorð í heiminum.

Ályktun um húsnæðismál

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, kallar eftir afgerandi lögvernduðu leiguþaki sem verndar leigjendur fyrir óhóflegum og ófyrirséðum hækkunum. Það þarf að koma í veg fyrir að einkafjárfestar eigni sér fasteignamarkaðinn á Íslandi með öllu. Með því fer húsnæði landsmanna í vítahring kapítalismans þar sem græðgin á sér engin takmörk. Það er með öllu óboðlegt fyrir fólk af öllum kynslóðum að þurfa að hafa miklar fjárhagsáhyggjur vegna húsnæðiskostnaðar. Sporna þarf við að húsnæði sé nýtt sem fjárfestingarkostur, svo sem með skattlagningu á hagnaði af sölu íbúða sem ekki eru notaðar til eigin búsetu eiganda sem og aukin fasteignagjöld á aðra eða þriðju eign.

Við mótmælum einnig þeirri tillögu að ekki sé hægt að nýta áfram viðbótarlífeyrissparnað til að greiða niður húsnæðislán. Þetta hefur klárlega áhrif á sama fólk og lendir í fyrrgreindu vandamáli, t.a.m. lágtekjufólk og millitekjufólk, og úrræðið hjálpar gífurlega til við að eignast húsnæði. Það þarf einnig að auðvelda öryrkjum og minna efnuðum einstaklingum að leigja og eignast húsnæði, t.d. með leiguþaki. Stjórnvöld eiga að skoða af fullri alvöru að setja á laggirnar nýtt félagslegt eignaríbúðakerfi til að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði. Öruggt húsnæði er að sjálfsögðu mannréttindi.

Ályktun um kvenfrelsi og hinsegin málefni

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember, fordæmir þá aðför sem á sér nú stað að réttindum kvenna og hinsegin fólks um allan heim og lýsir fundurinn yfir þungum áhyggjum af upprisu öfgahægriafla. Ekki þarf að leita lengra en til Færeyja, þar sem þingið hafnaði nýlega að leyfa þungunarrof upp að 12 vikum, sem er mikið bakslag fyrir færeyskar konur. Svo eru það Bandaríkin, þar sem réttur kvenna yfir eigin líkama hefur verið takmarkaður í mörgum ríkjum í kjölfar þess að árið 2022 snéri hæstiréttur landsins við hinum svokallaða „Roe vs. Wade“ dómi. Aðgengi kvenna að þungunarrofi þarlendis hefur verið verulega skert í kjölfar þessara sviptinga. Þá er staða kvenna í Afganistan skelfileg. Þar er vegið að mannréttindum þeirra, þeim er neitað um sjálfræði og málfrelsi og meinaður aðgangur að menntun og samfélaginu. Alþjóðasamfélaginu ber að fordæma aðför talibana að grundvallarmannréttindum kvenna. Mikilvægt er að Ísland haldi á lofti gildum kvenfrelsis og félagslegs réttlætis í öllu alþjóðasamstarfi. Í því andrúmslofti er mikilvægt að Vinstri græn taki forystu í að standa vörð um og efla mannréttindi allra hópa sem eiga undir högg að sækja. Við megum aldrei sofna á verðinum gagnvart kvenfrelsi og réttindum kvenna.

Ung vinstri græn fagna fjölbreytileikanum og styðja heilshugar full mannréttindi og virðingu gagnvart manneskjum burtséð frá þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Við styðjum við málfrelsi og baráttu jaðarhópa að öllu leyti og finnst sjálfsagt að öll séu samþykkt í samfélaginu.

Ályktun um fæðingarorlof og fjárhagslega stöðu kvenna 

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, telur að gagngera endurskoðun þurfi á stuðningsneti barnafjölskyldna til að tryggja fjárhagslegt frelsi kvenna.  Fundurinn vekur athygli á mikilvægi þess að hækka lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, gera fæðingarstyrk að raunhæfum möguleika fyrir fólk sem ekki á rétt á greiðslum úr sjóðnum, tryggja fólki lífeyristekjur meðan á fæðingarorlofi stendur og að unnið verði að því að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér þarf kröftuga aðkomu ríkisvaldsins, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Styðja þarf sérstaklega við jafna fæðingarorlofstöku foreldra. Enn sem komið er móðirin það foreldri sem lengst er heima til að sjá um börn og lendir í kjölfarið í gífurlegri launaskerðingu og gjarnan stöðulækkun þegar hún snýr aftur á vinnumarkaðinn. Við það skerðast lífeyrissjóðstekjur til lengri tíma, sem skerðir fjárhagslegt sjálfstæði kvenna. Við fordæmum þetta með öllu og viljum leita allra leiða til að auka fæðingarorlofstöku karla. 

Ályktun um samfélagsmiðla
Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, fordæmir skeytingarleysið sem stórfyrirtæki og stjórnvöld um allan heim hafa sýnt skaðlegum afleiðingum notkunar samfélagsmiðla. Ungmenni finna fyrir álagi og pressu til að fylgja útlitskröfum sem birtast á þessum miðlum og að vera sífellt virk. Þetta kemur niður á andlegri heilsu þeirra. Mörg ungmenni lýsa yfir áhyggjum sínum af þessari þróun. Þessi forrit eru hönnuð til að leiða af sér fíkn, sérsníða notkun ungmenna að símanum sínum og auglýsa óheilbrigðar staðalímyndir. Samskipti fara meira og meira fram á samfélagsmiðlum og tjáning ungmenna hvert við annað fer dvínandi, ekki sjálfviljugra, heldur vegna stórra fyrirtækja sem græða á tíma þeirra. Með takmörkun samskipta verður erfiðara að tjá erfiðar tilfinningar, sem hefur neikvæð áhrif á andlega heilsu ungmenna. Sýnt hefur verið fram á að takmörkun tjáningar tilfinninga hjá karlmönnum getur til leitt til alvarlegar hrörnunar andlegrar heilsu ásamt aukinni hættu á sjálfsvígum. Nógu erfitt er fyrir öll ungmenni að fylgja öðrum samfélagslegum kröfum í þeirra umhverfi, þar sem álagið við að passa í hópinn er einstaklega krefjandi. Bregðast verður við með átaki í skólum landsins. Efling frístunda og annarra áhugamála ungmenna þar sem þau geta ræktað hæfileika sína og eflt sig er þeim einnig til mikilla hagsbóta. Stöndum með ungu fólki.  

Ályktun um skaðaminnkun og sölu bjargráðalyfja

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, bendir á að slæm andleg heilsa ungmenna getur haft ýmsar afleiðingar. Ein afleiðing er meiri sókn í ákveðin efni til að líða betur. Faraldur ópíóíðanotkunar hefur náð til ungmenna og þau eru ekki upplýst nægilega vel um skaðsemi þeirra. Í kjölfarið eru ungmenni í hættu á ofskömmtun lyfjanna. Þetta eru lífshættulegar aðstæður sem geta leitt af sér öndunarstopp og ótímabæran dauða. Algjört bann er þó ekki líklegt til að skila árangri. Þegar aðgengi er mjög takmarkað er meira hætta á að ólögleg efni rati inn í landið, eins og fentanyl, sem hefur ollið miklum skaða í Bandaríkjunum. Með óreiðukenndri og óáreiðanlegri innkomu nýrra ópíóíðaefna á markaðnum er ekki hægt að treysta á skömmtun ópíóíðanna, sem hefur stórhættulegar afleiðingar og ýtir undir fleiri dauðsföll ungmenna, sem og annarra. Ung vinstri græn styðja skaðaminnkandi úrræði þar sem einstaklingar eru studdir í niðurtröppun og yfirferð á lyfjameðferð með ópíóíðum. Ung vinstri græn styðja sölu bjargráðarlyfsins naloxone í lausasölu í apótekum sem er hægt að grípa í heima þegar í stað við skaðlegum aukaverkunum lyfjanna og þegar öndunarbæling á sér stað. 

Ályktun um bann við olíuleit á Norðurslóðum

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, ályktar gegn olíuleit á Norðurslóðum. Fundurinn minnir á að Norðurslóðir verða fyrir meiri áhrifum loftslagsbreytinga en flest önnur svæði jarðar. Norðurslóðir standa frammi fyrir stórum áskorunum vegna hækkandi hitastigs og þegar jöklar bráðna afhjúpast ný svæði sem geta hugsanlega innihaldið olíulindir. Ásókn í gróða gerir það freistandi að nýta þessar auðlindir til framleiðslu jarðefnaeldsneytis, sem mun auka á loftslagsvandann og valda enn frekari eyðileggingu á svæðum sem þegar eru á barmi umhverfishruns. Í ljósi þessa er ákall eftir því að Norðurskautssvæðið verði lýst olíuleitarlaust. Í stað þess að leita að olíu eða bora eftir henni í viðkvæmum vistkerfum ættu þjóðir við Norðurslóðir að setja sjálfbærni í forgang og útiloka olíuleit með öllu. Með slíkri skuldbindingu getum við varðveitt einstök vistkerfi fyrir komandi kynslóðir. Því er nauðsynlegt að Ísland banni olíuleit og olíuvinnslu á eigin umráðasvæði og vinni að banni þar að lútandi á Norðurslóðum öllum.

Ályktun um umhverfismál og raforkuvinnslu 

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, ályktar að auðlindir skuli vera í þjóðareign. Forðast skal frekari uppbyggingu í orkuframleiðslu þar sem ekki er hægt að segja að rafmagnsskortur sé á Íslandi þegar stóriðja notar 77% alls rafmagns á landinu. Hætta steðjar að ósnortinni og viðkvæmri náttúru Íslands vegna orkuframleiðslu fyrir orkufrekan iðnað. Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma, er í senn mjög mengandi fyrir loftslagið og á stóran hluta af kolefnisspori Íslands. Langstærsti flokkurinn sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er iðnaður og efnanotkun, sem hefur aukist um 122 prósent frá 1990 til 2021. Þá hefur losun frá staðbundnum iðnaði, þ.e. ál- og kísilverum, aukist um 116% frá árinu 2005 – og nemur 40% af losun Íslands, ef landnotkun og skógrækt eru ekki reiknuð með. Ekki er reiknað með að nokkur almennilegur samdráttur verði á losun tengdum þessum iðnaði í náinni framtíð.

Gagnaver sem eru að stærstum hluta notuð til að grafa eftir rafmynt nota jafn mikið rafmagn og heimilin í landinu, eða 5%. Tryggja þarf að almenningur hafi aðgang að raforku framyfir orkufrekan iðnað á borð við málmframleiðslu og gagnaver.

Sé talið nauðsynlegt að fara í frekari orkuöflun, skulu opinberir aðilar sjá um uppbyggingu í raforkuvinnslu, hvort sem um ræðir vatnsaflsvirkjanir eða vindorkuver, og skuli þau falla undir rammaáætlun. Áður en hafist er handa skal samþykkja skýrt regluverk um auðlindagjald, staðsetningu og annað sem að þeim snýr. Vindorkuver skuli byggjast upp í sátt við íbúa svæðisins, valda sem minnstri sjónmengun, ekki spilla viðkvæmum náttúruperlum og vera í almannaeign. Mikilvægt er að byggja upp regluverk og koma málaflokknum í umsjá opinberra aðila hið fyrsta til að koma í veg fyrir gullgrafaraæði í uppbyggingu vindorkuvera í skjóli slaks regluverks.

Einnig ítreka Ung vinstri græn nauðsyn þess að stöðva kaup erlendra aðila á jörðum í þeim tilgangi að auka einkagróða. Á það við um land undir vindorkuver, laxveiðiár, vatnsauðlindir, efnisnámur og til skógræktar. Eigi slík uppbygging að eiga sér stað, skal það gerast í umsjá opinberra aðila í sátt við íbúa svæðisins og valda sem minnstru umhverfisraski, yfirborðsraski, sjónmengun eða öðrum umhverfisspjöllum eða umbyltingu lands, sem losar mikið magn kolefnis, til að verna viðkvæmt vistkerfi.

Ályktun um að kynstaðfestandi ferli verði skilgreint sem lífsnauðsynleg heilbrigðisþjónusta

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, minnir á að aðgengi trans fólks að kynstaðfestandi aðgerðum er lykilatriði í heilsu og jafnrétti í nútímasamfélagi. Kynstaðfestandi aðgerðir eru sem stendur ekki flokkaðar sem lífsnauðsynlegar aðgerðir í heilbrigðiskerfinu, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að kynami veldur miklum tilfinningalegum erfiðleikum og eykur líkur á sjálfsskaða og sjálfsvígi. Það að aðgerðirnar séu ekki flokkaðar sem lífsnauðsynlegar dregur úr framboði þeirra og lengir biðina. Við styðjum réttindi trans fólks og fordæmum allt sem skerðir mannréttindi þess.

Ályktun um áhrif feðraveldisins á geðheilbrigði

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2024, kallar eftir öflugri uppbyggingu í geðheilbrigðismálum í þágu ungmenna og samfélagsins í heild. Stórefla þarf forvarnarstarf gegn sjálfsskaða og utanumhald og stuðning við aðstandendur. Stór hluti ungmenna, sérstaklega karlmenn, eru að detta úr skólakerfinu og einangrast miðað við jafnaldra sína. Styðja þarf við þau sem þetta á við, t.d. með aukinni áherslu á samtalsmeðferð, auknu aðgengi að netspjöllum þar sem hægt er að tala við sérfræðinga og auknu aðgengi að tómstundum, iðkun áhugamála og heilsurækt. Styðja þarf við að karlmenn geti talað um tilfinningar sínar án fordóma og á heilbrigðan máta.

Áréttar fundurinn að ríkjandi kynjakerfi er stór áhrifavaldur í firringu, tekur ekki tillit til fjölbreytni einstaklinga og veldur tilfinningalegri og félagslegri einangrun. Í þessu samhengi er mikilvægt að orðræðan útiloki ekki tilfinningalega og andlega heilsu karlmanna og drengja. Mikilvægt er  að stuðla að bættri andlegri heilsu þeirra, ýta undir að þeim finnist þeir vera velkomnir í þeirra nærumhverfi og samfélagi og að við höldum utan um þennan hóp.