Falleg orð og fordómar

Við sem skrifum þessa grein viljum vekja athygli á málefnum fatlaðs fólks í Hafnarfirði. Við brennum fyrir þennan málaflokk. Persónuleg reynsla af viðmóti og framkomu bæjaryfirvalda þegar kemur að atvinnumálum ungs fatlaðs fólks á þessu kjörtímabili var í upphafi ekki góð og ekki gert ráð fyrir að fötluðum ungmennum stæðu til boða þau  fjölbreyttu störf sem auglýst voru. Hér þarf að gera betur.

Falleg orð á blaði

Stefnur Hafnarfjarðar innihalda fögur orð og fyrirheit. Í jafnréttis- og mannréttindastefnu segir að gera eigi fötluðu fólki „kleift að taka virkan þátt í hafnfirsku samfélagi og að það hljóti sanngjarna og réttláta meðferð“. Og að tryggja skuli rétt fatlaðs fólks á „vinnustöðum Hafnarfjarðarbæjar og skapað fordómalaust andrúmsloft“. Hljómar vel. En reyndust bara falleg orð á blaði. Ákveðnir stjórnendur hjá stofnunum Hafnarfjarðarbæjar höfðu þá sýn að fötluð ungmenni skyldu vera í sérúrræðum óháð vilja þeirra.

Fordómar og útskúfun í raun

Í ljós kom að í stað háleitrar stefnu um sanngirni, réttlæti og þátttöku, birtust fordómar, útskúfun, óréttlæti og ósanngirni. Annað hvort þekkja bæjaryfirvöld ekki eða skilja ekki ákvæði jafnréttis- og mannréttindastefnunnar  um fatlað fólk, eða að þau kunna ekki að vinna í samræmi við stefnu bæjarins. Það var afar sársaukafull reynsla að standa frammi fyrir vanþekkingu, fordómum og niðurlægjandi framkomu ákveðinna  starfsmanna og stjórnenda bæjarins. Hér þarf að bæta úr.

Gerum betur – göngum lengra

Frístundastarf, náms-, og starfsframboð á vegum Hafnarfjarðarbæjar á að vera fyrir öll börn og ungmenni Hafnarfjarðarbæjar og gæta á viðeigandi aðlögunar til að svo verði í raun. Gera þarf átak í málefnum fatlaðs fólks. Við leggjum áherslu á að innleiða Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks með skipulegum hætti í allt starf bæjarins, efla samráð bæjarins við fatlað fólk, bæta aðgengi og gera framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólk  til að tryggja að þetta verið ekki bara falleg orð á blaði.

Finnbogi Örn Rúnarsson, nemi, verkstjórnandi og fréttamaður – 6. sæti á lista VG í Hafnarfirði.

Rannveig Traustadóttir, prófessor emerita í fötlunarfræðum – 14. sæti á lista VG í Hafnarfirði.