Náttúra Íslands er einstök og hana ber að vernda. Tækifærin felast í því að leyfa náttúrunni að njóta sín frekar en að nýta hana með óafturkræfum framkvæmdum. Snúa þarf við geigvænlegu tapi á lífbreytileika um allan heim.
- Náttúran á alltaf að njóta vafans.
- Náttúruauðlindir landsins eru í sameign þjóðarinnar og eiga að vera nýttar skynsamlega í þágu allra.
- Breytingar á stjórnarskrá eiga að endurspegla áherslur á umhverfisvernd og auðlindaákvæði er grundvöllur þess að tryggja gagnsæi og réttlæti í umhverfismálum.
- Leggja þarf áherslu á skipulagða vatnsvernd og vernd í hafi, samhliða annarri umhverfisvernd.
- Dýravelferð þarf að vera höfð að leiðarljósi og efla þarf eftirlit við meðferð og ræktun dýra.
- Stofna skal þjóðgarð á hálendi Íslands.
- Landvarsla verði efld til þess að mæta vaxandi umgengni um landið.
- Aðstaða á ferðamannastöðum verði stórbætt til þess að tryggja betri og náttúruvænni umgengni og upplifun.
- Ósnortin víðerni þarf að friða eftir flokkunarkerfi Alþjóðlegu náttúrusamtakanna (IUCN).
- Stuðla þarf að verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Endurheimt votlendis er mikilvægt skref í átt til þess. Vernda þarf náttúru Íslands fyrir ágengum tegundum.
- Orkustefna þarf að ríma við markmið okkar í loftslagsmálum. Skoða þarf orkuþörf á Íslandi með tilliti til réttlátra umskipta.
- Rammaáætlun á að vera stjórntæki sem stuðlar að náttúruvernd frekar en óheftri virkjun. Rammaáætlun ætti að stuðla að heilbrigðu samtali og vera leið til að forðast skotgrafir. Í ákvörðunum má ráðgjöf vísindamanna ekki lúta lægra valdi vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum.
- Friðlýsa þarf virkjunarkostum í verndarflokki. Virkjunarkostir í biðflokki skulu raunverulega bíða samkvæmt varúðarreglunni. Ekki má vinna mikla undirbúningsvinnu virkjunar þeirra kosta sem eru í biðflokki til að auka ekki hagsmuni vegna þeirra.
- Skilgreining á smávirkjunum ætti að byggja á afturkræfni. Ljóst er að viðmiðið um 10MW er engan veginn nógu þröngt til að koma í veg fyrir óheft og óafturkræf náttúruspjöll. Lækka ætti viðmiðið fyrir smávirkjanir niður í 2 MW og krefja ætti framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum.