Loftslagsvá er ein af þeim stærstu ógnum sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Líf og farsæld okkar allra, sem og komandi kynslóða veltur á því hversu snarlega við bregðumst við þessari ógn. Sporna þarf við henni með róttækum, hröðum og afdráttarlausum aðgerðum.
Ung vinstri græn vilja að:
- Ísland standi við sínar skuldbindingar í loftslagsmálum og gangi enn lengra með sjálfstæðum, framsæknum markmiðum studdum með aðgerðum og fjármagni.
- Lögfesta ætti sjálfstætt markmið Íslands, til viðbótar við samstarf ESB, um að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um 60% fyrir 2030 m.v. 2005, stóriðja og landnotkun meðtalin, óháð viðmiðunarárum.
- Undirmarkmið um 70% samdrátt í losun á beinni ábyrgð stjórnvalda (ESR)
- Undirmarkmið um 60% samdrátt í losun í viðskiptakerfi ESB (ETS)
- Undirmarkmið um 50% samdrátt í losun vegna landnotkunar (LULUCF)
- Lögfest markmið um kolefnishlutleysi 2040 verði gert upp sem raunverulegt, eðlisfræðilegt kolefnishlutleysi þar sem talin er með losun vegna landnotkunar óháð viðmiðunarárum.
- Koma í veg fyrir útvistun losunar með því að mæla neysludrifið kolefnisspor Íslands og setja það markmið að draga úr því um 60% fyrir 2030 og ná kolefnishlutleysi 2040.
- Krefja framleiðendur, innlenda sem erlenda, um birtingu kolefnisspors á öllum vörum, allt frá matvælum til sements.
- Eftir árið 2030 verði innflutningur jarðefnaeldsneytis takmarkaður við kvóta sem samsvarar innflutningi ársins 2030 og sá kvóti lækkaður um 10% á ári. Útbúa þarf kvótakerfi eins og hefur verið gert fyrir aðrar takmarkaðar auðlindir.
- Setja markmið um endurheimt 40% framræstra votlenda 2030 og 80% árið 2040.
- Reikna út hversu stór hluti vergrar landsframleiðslu fer í loftslagstengdar fjárfestingar og aðgerðir, bæði á vegum ríkis og fyrirtækja. Stefna ætti að 1% frá ríki og að hlutdeild fyrirtækja verði að lágmarki sú sama, samanlagt 2%.
- Útbúa viðbragðsáætlun vegna loftslagsváar sem skilgreinir hættustigin þrjú, óvissustig, hættustig og neyðarstig, og í hverju þau felast. Neyðarstigi vegna loftslagsváar sé lýst yfir þegar það á við.
- Flýta markmiði Orkustefnu um jarðefnaeldsneytislaust Ísland til 2040, lögfesta það markmið og leggja fram skýra aðgerðaáætlun.
- Kolefnisgjald verði lagt á allar tegundir gróðurhúsalofttegunda, í öllum geirum.
- Árleg 20-30% hækkun kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti sem miðar að algjörri útfösun jarðefnaeldsneytis úr íslensku samfélagi árið 2040. Gjaldið verði notað í aðgerðir gegn loftslagsvá og til að tryggja réttlát umskipti á sama tíma.
- Réttlát umskipti verði tryggð, að aðgerðir taki tillit til allra hópa samfélagsins og bitni ekki á efnaminna fólki. Einnig þurfa aðgerðir að vera réttlátar þvert yfir landið
- Meta loftslagsáhrif allra lagafrumvarpa þannig loftslagsmál verði rauður þráður í allri stefnumótun stjórnvalda og ekki sér aðskildur málaflokkur.
- Lögfesta stefnu Vinstri grænna um bann við allri olíuleit í íslenskri lögsögu og olíuvinnslu á Íslandi.
- Banni við nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla flýtt til 2023.
- Bann við nýskráningu vinnuvéla, tækja, hópferðabíla, flutningabíla og skipa sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti 2025.
- Jarðefnaeldsneytislausar opinberar framkvæmdir frá 2023 og einkaframkvæmdir frá 2025.
- Raf- eða vetnisvæðing innanlandsflugs og flugs til næstu landa fyrir 2040.
- Leggja ætti ríka áherslu á að styrkja umhverfisvænar samgöngulausnir með uppbyggingu almenningssamgangna og hjólreiðastíga og forgangsraða þeim í fjármögnun samgönguinnviða. Á höfuðborgarsvæðinu ætti að forgangsraða vistvænum samgöngum fram yfir einkabílinn eins og frekast er unnt. Bæta þarf almenningssamgöngur í öllum landshlutum og á milli landshluta.
- Þrengja ætti að einkabílnum í stærri þéttbýlum þannig hann sé verri kostur en vistvænar samgöngur. Þetta mætti t.d. gera með því að þrengja götur og setja hjólastíga meðfram, setja hámarksfjölda bílastæða á hvern hektara, veita gangandi og hjólandi ávallt forgang á umferðarljósum, lækka hámarkshraða eða auka gjaldskyldu bílastæða.
- Umskipti í matvælaframleiðslu og styrkjakerfi í landbúnaði til að styrkja loftslagsvænni matvælaframleiðslu og draga úr matarsóun.
- Lækka virðisaukaskatt á loftslagsvæn matvæli og draga úr styrkjum til matvælaframleiðslu með hátt kolefnisspor.
- Draga þarf úr neyslu dýraafurða og stöðva innflutning óþarfa matvæla.
- Auka verulega stuðning við nýsköpun í tæknilausnum kolefnisföngunar og bindingar með áherslu á útfærslu tækninnar í iðnaði.
- Auka verulega stuðning við nýsköpun í orkuskiptatækni á skipum og í flugi.
- Veita þarf ívilnanir og byggja upp innviði til orkuskipta í flutningum á sjó og landi, í byggingariðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi.
- Skýrar lögfestar skyldur á lífeyrissjóði og banka um loftslagsvænar fjárfestingar frá 2022.
- Aðgreining Loftslagsráðs í samræmi við tvíþættan tilgang þess, að veita stjórnvöldum aðhald og draga hagsmunaaðila að borðinu. Loftslagsráð vísindamanna fái það hlutverk að meta hvert sé sanngjörn hlutdeild Íslendinga af samdrætti í losun á heimsvísu, að magngreina aðgerðaáætlun stjórnvalda og meta hvort hún sé nægilega metnaðarfull. Stjórnvöldum bæri skylda til að uppfæra markmið og aðgerðaáætlun stjórnvalda í samræmi við þau tilmæli. Loftslagsráð hagsmunaaðila myndi áfram starfa til að skapa sem mesta sátt um aðgerðir í samfélaginu.
- Aðlögun að loftslagsbreytingum fái meira vægi og Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum verði fylgt eftir með fjármagnaðri aðgerðaráætlun.
- Loftslagsvá veldur nú þegar hamförum víða um heim og mikilvægt er að Ísland sé reiðubúið að auka móttöku fólks á flótta vegna loftslagsbreytinga.
- Þrefalda stuðning við þróunarlönd bæði í mótvægisaðgerðum gegn og aðlögun að loftslagsvá. Einnig miðla þekkingu sem Ísland hefur í þessum efnum.
- Vinna með öðrum þjóðum að kolefnishlutleysi, bæði á alþjóðavettvangi, í Evrópu og hjá Norðurlöndunum.
- Stefna, markmið og aðgerðir gegn loftslagsvá byggi á þekkingu og rannsóknum vísindamanna og uppfærðar reglulega eftir því sem loftslagsvísindunum vindur fram.
- Hlusta þarf á ákall ungs fólks og loftslagsverkfallanna um að leggja mun meira fjármagn í aðgerðir gegn loftslagsvánni og forða þannig komandi kynslóðum frá mun meiri kostnaði.