Hringrásarhagkerfi

Skilvirkari nýting auðlinda dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, hægir á tapi líffræðilegrar fjölbreytni og dregur úr mengun. Skipulagsvinna á öllum sviðum ætti að einkennast af hugmyndafræði hringrásarhagkerfis. Árangur samfélagsins á ekki að vera metinn einungis út frá hækkandi hagvexti og aukinni vergri landsframleiðslu heldur taka tillit til umhverfis- og samfélagslegra þátta. 

  • Stuðlað verði að meðvitaðri og hóflegri neyslu, vörur notaðar betur og endurvinnsla verði aukin.
  • Fylgja þarf eftir aðgerðaráætlun um Hringrásarhagkerfi, og setja skýr markmið með vísum sem taka til ólíkra þátta, t.d. framleiðslu, neysluhegðun og endurnotkun. 
  • Flokkun á að vera auðveld og aðgengileg. Fjölga þarf flokkunartunnum við heimili, grenndargámum fyrir flokkaðan úrgang og aðgengi að flokkunartunnum á almenningssvæðum.
  • Samræma og staðla þarf flokkunarkerfi úrgangs yfir landið allt. 
  • Skylda ætti framleiðendur til að hanna vörur frá hringrásarsjónarmiði og nota umbúðir sem hægt er að aðgreina og flokka með auðveldum hætti.
  • Styðja skal við deilihagkerfi og viðgerðarþjónustur.
  • Innleiða mengunarbótareglu í auknum mæli og kanna leiðir til skattlagningar mengunar. 
  • Skilgreina þarf hámarksgildi þungmálma og annarra mengunarefna í moltu. Stefna ætti alltaf að söfnun lífræns úrgangs sér, t.d. með hverfis-moltugerðarstöðvum. 
  • Hraða þarf orkuskiptum og gera almenningssamgöngur að betri kosti.
  • Stefna að því að stórauka innlenda framleiðslu á grænmeti og auka við hvata til þeirra sem vilja stunda sjálfbæran landbúnað. 
  • Auka aðgerðir sem sporna við matarsóun.
  • Auka stuðning við nýsköpun og sprotafyrirtæki sem hafa umhverfisvernd að leiðarljósi. 
  • Að atvinnusköpun í ferðamannaiðnaðnum byggist upp í sátt við umhverfið, með ábyrgum hætti og sjálfbærni að leiðarljósi. Uppbyggingin ætti að vera sem víðast á landsbyggðunum og gæta þarf þess að hún komi ekki niður á umhverfinu.
  • Setja skýr markmið um réttlát umskipti, og gæta þess að aðgerðir í átt að hringrásarhagkerfi taki tillit til jafnaðar.
  • Setja fram aðgerðaráætlun um sköpun grænna starfa.
  • Hætta ætti að nota hagvöxt sem mælikvarða á árangur samfélags og nota frekar hag- og velsældarmælikvarða eins og t.d. vísi sannra framfara (e. Genuine Progress Indicator).