Grundvallarstefna Ungra vinstri grænna er að allir hafi jöfn samfélagsleg réttindi án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar, uppruna, búsetu eða annarra félagslegra þátta. Hreyfingin leggur áherslu á að öll þjónusta hins opinbera standi öllum til boða óháð þessum þáttum.
Ung vinstri græn vilja að skattkerfinu sé beitt í þágu jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Tryggja þarf að mesta byrðin af skattkerfinu hvíli hjá þeim sem geta borið hana og að reynt sé til hins ítrasta að vernda þá verst settu. Ung vinstri græn leggja áherslu á samfélagslegt öryggi sem felst í uppbyggingu öflugs velferðarkerfis, að félagslegt réttlæti sé í leiðarljósi í allri stefnumótun og að öflugt heilbrigðiskerfi sé til staðar þar sem allir geta sótt sér læknisaðstoð án tillits til efnahags- og/eða samfélagsstöðu.
Ung vinstri græn líta á gjaldfrjálsa menntun sem jafnréttis- og mannréttindamál. Menntun er mannréttindi, ekki forréttindi, og leggjast því Ung vinstri græn gegn einkavæðingu og skólagjöldum í menntakerfinu. Gerð er krafa um jafnan rétt til náms, hvort sem um ræðir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, iðnskóla, háskóla, list- og tómstundanám eða endur- og símenntun. Bæta þarf kjör kennara á öllum skólastigum í samræmi við þau mikilvægu störf sem kennarar gegna og þá ábyrgð sem þeir bera á uppeldi og menntun barna.
Ung vinstri græn telja að ríkið þurfi að axla ábyrgð og efla uppbyggingu og endurbætur á samgöngum til að tryggja landsmönnum jafnt aðgengi að grunnþjónustu. Hreyfingin telur nauðsynlegt að haldið sé áfram þeirri stefnu að beita samgöngubótum til að skapa heildstæð byggða- og atvinnusvæði og að ráðist sé í sértækari aðgerðir til aðstoðar þeim svæðum sem standa verst. Auk þess eru góð fjarskipti grundvöllur þess að byggð þrífist um land allt. Grunnnet fjarskipta- og orkudreifingarkerfisins á að vera í þjóðareigu og sama verðskrá fyrir landið allt