Enn og aftur erum við hér. Að minna þingmenn VG á hvaðan þau koma. Þegar VG var stofnuð árið 1999 voru náttúruverndarmálin ein ástæða þess að hreyfingin varð til. Við státum okkur af því að hafa komið þeim málum á dagskrá, einu sinni vorum við ein að tala um þau en nú eru þau á allra vörum. Þökk sé VG. ,,Náttúran á alltaf að njóta vafans.“ Hversu oft ætli við höfum öll sagt þessa setningu sem er skrifuð í stefnu VG?
Það er fólk um allt land sem styður VG af því þau treysta því að VG standi í lappirnar þegar kemur að náttúrunni. Hverju í ósköpunum á þetta fólk að trúa núna?
Nýlegar fréttir af hvað 3. áfangi rammaáætlunar inniheldur eru enn ein bylgja frétta af vendingum á þinginu þar sem of langt er gengið í málamiðlunum. Við skiljum að það þarf að málamiðla, að við fáum ekki allt sem við viljum þegar við erum í vægast sagt vafasömu samstarfi. En hvenær er of langt gengið? Okkur þykja ógnir við Þjórsá, Héraðsvötn, Skjálfandafljót og allar hinar stórkostlegu náttúruperlurnar sem verið er að spila með of langt gengið. Sérstaklega þar sem málið virðist ætla fram að ganga án þess að heyrist hósti eða stuna frá þingmönnum VG, utan Bjarna Jónssonar, sem á heiður skilinn fyrir að víkja ekki frá eigin sannfæringu. En hvar eruð þið hin?
Grasrót VG, ekki bara ungt fólk heldur VG liðar á öllum aldri, hefur sent skýr skilaboð. Við viljum sjá okkar fólk standa upp og segja sinn hug í þessu máli. Af því við vitum að ekkert ykkar trúir því að þetta sé það besta fyrir náttúruna. Það eru stundir eins og þessi þar sem náttúran og unga fólkið sem berst fyrir henni treystir því að hægt sé að treysta á VG.
Við höfum spurt áður og gerum það aftur: Er ríkisstjórnarsamstarfið í alvöru þess virði að við fórnum eigin sannfæringu og baráttumálum? Meira að segja náttúruverndinni, okkar innsta kjarna. Við höldum ekki.
Við hvetjum öll til að mæta á samstöðufund með náttúrunni sem verður haldinn klukkan 17:00 í dag á Austurvelli: https://www.facebook.com/events/405360574809755/
Framkvæmdastjórn UVG