Fjársvelt umhverfisráðuneyti í boði ríkisstjórnarinnar

Vegna hagræðingarátaks ríkisstjórnarinnar hefur Jó­hann Páll Jó­hanns­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra ákveðið að falla frá ráðstöf­un 600 millj­óna króna af fjár­heim­ild­um árs­ins 2025. Ráðherrann leggur áherslu á lækka útgjöld til að styðja við markmið ríkisstjórnarinnar um bætta afkomu ríkisins. 

Umhverfisráðuneytið hefur í gegnum tíðina verið fjársvelt. Það voru Vinstri græn sem juku framlög til umhverfisráðuneytisins um 50% milli 2017 og 2021. Þessi ákvörðun ráðherrans nú er mikil afturför fyrir þennan mikilvæga málaflokk. Að nýta ekki fjármuni í öll þau brýnu verkefni sem heyra undir ráðuneytið er ákvörðun sem nær engri átt, verkefni munu nú ekki komast í framkvæmd og dregið verður úr öðrum vegna tilbúins fjárskorts ráðherrans sjálfs. Þetta fordæma Ung vinstri græn harðlega.

Er meiningin að láta minna fjármagn renna í að tryggja öryggi gegn náttúruvá, verndun náttúru Íslands, framkvæmd vöktunar og rannsókna, vinnu að kolefnishlutleysi Íslands og öðrum loftslagsmálum og að koma á hringrásarhagkerfi til að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda? Hvert er planið?

Það er verið að fjársvelta umhverfisráðuneytið í boði núverandi ríkisstjórnar. Því mótmæla Ung Vinstri græn.