Ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að veita fimm ára hvalveiðileyfi er afar umdeild og má færa rök fyrir því að hún sé bæði fordæmalaus og andstæð lýðræðislegum vinnubrögðum. Vísað hefur verið til sambærilegra ákvarðana starfsstjórna, t.d. ákvörðunar Einars K. Guðfinnssonar árið 2009, en þessi samanburður er samt sem áður ósambærilegur. Ákvörðun Einars var tekin nær upphafi gildistöku leyfisins, á meðan Bjarni veitti leyfið tæpu ári áður en það tekur gildi. Þar að auki kemur þessi ákvörðun fram á viðkvæmum tíma þegar flokkar sem eru andvígir hvalveiðum standa í stjórnarmyndunarviðræðum. Ákvörðun Bjarna er sömuleiðis tekin stuttlega eftir hrossakaupum á milli Bjarna og Jóns Gunnarssonar, þar sem veiting hvalveiðileyfis var tengd ráðherraskipan í Matvælaráðuneytið. Þetta kallar því í ítarlega gagnrýni, eins og fullyrðingar um vanhæfi Bjarna vegna fjölskyldutengsla við Hval hf.
Ákvörðunin tekur heldur ekki tillit til dýrafvelferðarsjónarmiða né vilja meirihluta þjóðarinnar, sem er andvígur hvalveiðum. Í stærra samhengi er mikilvægt að líta á hvalveiðar gagnrýnari augum og sem stórt siðferðilegt og réttlætismál þar að náttúran á að njóta vafans og dýr eiga að fá frelsi til að vera. Mikilvægt er að læra af mannkynssögunni og að það sem hefur oft á tíðum talist vera löglegt sé ekki alltaf í samræmi við það sem er réttlát. Í því samhengi má nefna hrun bláhvalsstofna á 19. og 20. Öld, þegar vísað var í lög og færð rök fyrir atvinnufrelsi til þess að réttlæta veiðarnar, sem höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir náttúru, vistkerfi, loftslag og dýralíf.
Hvalveiðar eru tímaskekkja sem Alþingi á að banna með lögum. Bjarni Benediktsson hefur enn einu sinni sýnt að honum er ekki treystandi fyrir valdi og tekur hagsmuni vina sinna fram yfir hagsmuni náttúru og dýravelferðar. Dagurinn sem hann hættir í stjórnmálum verður góður dagur fyrir íslensku þjóðina.
Ályktun samþykkt af stjórn Ungra Vinstri grænna þann 8. desember 2024.