Ályktanir fyrir landsfund UVG 2025

Ályktun um kolefnishlutlausar samgöngur

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 11. október 2025, kallar eftir banni á  nýskráningu á vélum, bílum, skipum og tækjum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Losun vegna ökutækja og innviða var 31% af samfélagslosun Íslands árið 2024. Orkuskipti í samgöngum eru því lykilþáttur í að Ísland nái kolefnishlutleysi og vegur þar bílaleiguflotinn sérstaklega mikið. Losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum vegna bruna jarðefnaeldsneytis veldur mestum hluta samfélagslosunar Íslands.  Stefnt er að því að banna nýskráningu bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030 en í skoðun er að flýta þessari tímalínu um tvö ár. Hins vegar verða stjórnvöld að láta kné fylgja kviði og sýna alvöru metnað til að ná þessum markmiðum. Í Noregi eru nærri allir nýskráðir bílar knúnir með rafmagni aftur á móti var það hlutfall eingöngu 30% á Íslandi. Almenningssamgöngur þarf einnig að efla og rafvæða um allt land svo þær nýtist almenningi sem best og losi ekki kolefni.         

Tíminn til aðgerða gegn loftslagsbreytingum er núna. Miðað við magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu stefnir í hamfarahlýnun, langt umfram útópískt markmið um 1.5°C hlýnun, sem hefði þó hræðilegar afleiðingar í för með sér. Þó svo að allir jarðarbúar myndu hætta að dæla út koltvísýringi í dag þá myndu íslenskir jöklar allir hverfa fyrir árið 2050. Það þarf því að stöðva útblástur koltvísýrings strax og hefja umfangsmikla föngun á því sem er komið út. Ísland býr yfir það mikilli grænni orku að það gæti verið í fararbroddi alþjóðlega. Ísland þarf að ná kolefnishlutleysi sem allra fyrst og það er í miklu betri stöðu en mörg önnur ríki heims til að ná því markmiði.

Sterkari opinber sálfræðiþjónusta

Landsfundur Ungra vinstri grænna, sem haldinn var í Reykjavík 11. október 2025, telur að stórefla þurfi sálfræðiþjónustu innan opinberrar heilbrigðisþjónustu. Gott heilbrigðiskerfi byggi á samkennd, jöfnuði og félagslegu réttlæti. Slíkt kerfi á að tryggja aðstoð til þeirra sem hennar þurfa mest, óháð greiðslugetu til að kaupa sér þjónustuna. Andleg heilsa á að vera hluti af almennu heilbrigðiskerfi, ekki markaðsvara sem aðeins sumir geta keypt sér aðgang að.

Í dag er staðan á Íslandi óásættanleg. Biðlistar í opinberri sálfræðiþjónustu eru oft margra mánaða langir og fyrir marga er biðin einfaldlega of þung. Þeir sem ekki geta beðið neyðast til að leita á einkastofur þar sem einn tími kostar að meðaltali um 23.500 krónur og verðið er stöðugt hækkandi umfram vísitölu neysluverðs. Stéttarfélög geta vissulega niðurgreitt fyrstu tímana en sú aðstoð dugar skammt, sérstaklega fyrir þá sem glíma við alvarlegri andlega erfiðleika. Afleiðingin er kerfi þar sem andleg heilsa verður að forréttindum. . Þeir efnameiri geta fengið meðferð og stuðning á meðan tekjulágt fólk, námsmenn, öryrkjar og aðrir í viðkvæmri stöðu sitja eftir. Þetta er pólitísk ákvörðun og bein afleiðing þess að opinbera heilbrigðiskerfið, og sérstaklega sálfræðiþjónustan, hefur verið vanfjármögnuð árum saman.

Andleg heilsa er ekki einkamál einstaklingsins heldur samfélagslegt ábyrgðarverkefni. Sterkt, opinbert heilbrigðiskerfi er eina leiðin til að tryggja að enginn verði skilinn eftir. Ung vinstri græn hafna að lausnin felist einungis í niðurgreiðslum á einkarekinni þjónustu, þó að það sé skref í rétta átt. Lausnin liggur í því að byggja upp öflugt, aðgengilegt og vel fjármagnað opinbert heilbrigðiskerfi þar sem andleg heilsa fær jafn mikið vægi og líkamleg heilsa. Þar af leiðandi krefjumst við að stjórnvöld taki ábyrgð og tryggi raunverulegt aðgengi allra að sálfræðiþjónustu, óháð efnahag eða búsetu. Það þarf stórfellda aukningu á fjármagni til opinberrar sálfræðiþjónustu, til að fjölga og halda í fagfólk og stytta biðlista bæði á heilsugæslum og á Landspítala. 

Samþætt þjónusta fyrir fólk í vímuefnavanda

Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Reykjavík 11. október 2025, kallar eftir aukinni samhæfingu og samvinnu innan vímuefnameðferðar á Íslandi. Samstarf á milli SÁÁ, Landspítalans, Hlaðgerðarkots og annarra vímuefnameðferða er takmarkað. Oft upplifir fólk sig týnt  í flóknu og ósamræmdu kerfi sem getur leitt til vonleysis. Samfella í meðferð rofnar og einstaklingar detta milli kerfa þegar þeir þurfa helst á stuðningi að halda. 

Það er skýr þörf á að auka samskipti milli stofnana og einfalda ferlið fyrir skjólstæðinga sem þurfa á aðstoð að halda. Til að einfalda ferlið og tryggja að engin falli á milli kerfa þurfa einstaklingar að hafa einn sameiginlegan inngang inn í þjónustuna. Stofnun eða samhæfð miðstöð sem tekur á móti fólki, metur þarfir þess og vísar því á viðeigandi úrræði, hvort sem það er innlögn, göngumeðferð eða félagslegur stuðningur, gæti aukið skilning og einfaldað ferlið verulega fyrir skjólstæðinga og gæti verið vettvangur fyrir aukið samstarf milli stofnanna.