Ályktun um róttækar breytingar á húsnæðismarkaði
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 kallar eftir róttækum breytingum á húsnæðismarkaði til að tryggja félagslegt réttlæti og aðgengi allra að öruggu húsnæði. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld virði að aðgengi að öruggu húsnæði á sanngjörnu verði eru mannréttindi. Allar aðgerðir stjórnvalda á húsnæðismarkaði eiga þess vegna að taka mið af því. Öruggt húsnæði á sanngjörnu verði er forsenda fyrir réttlátu og friðsömu samfélagi þar sem fólk fær notið jafnra tækifæra til mannsæmandi lífskjara.
Efla þarf almenna íbúðakerfið enn frekar og standa vörð um opinberan húsnæðissjóð sem nýttur skal í almannaþágu. Mikilvægt er að búsetuform sé fjölbreytt m.a. í formi húsnæðissamvinnufélaga og annarra óhagnaðardrifinna húsnæðis- og leigufélaga þar sem aðkoma hins opinbera er tryggð. Mikilvægt er að skoða einnig nýjar og skapandi lausnir í húsnæðismálum svo sem samvinnubúsetu og aukna aðkomu húsnæðissamvinnufélaga og annarra óhagnaðardrifinna aðila á húsnæðismarkaði.
Ályktun um endurgjaldslausar getnaðarvarnir fyrir ungt fólk
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 vill undirstrika mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu í kynheilbrigðismálum með áherslu á forvarnir, ráðgjöf og aðgengi. Aldurssamsvarandi fræðsla þarf að eiga sér stað á öllum skólastigum en aukin kynfræðsla stuðlar að heilbrigðara og réttlátara samfélagi. Tryggja þarf gott aðgengi fyrir ungt fólk að ráðgjöf og endurgjaldslausum getnaðarvörnum því fólk á ekki að þurfa að standa frammi fyrir fjárhagslegum hindrunum þegar það tekur ábyrgð á eigin kynheilbrigði.
Fundurinn leggur áherslu á að þessi vinna hefjist strax því aðgerðaleysi hefur einkennt málaflokkinn þrátt fyrir að mikilvægið sé ótvírætt.