Ályktun UVG vegna rasískra ummæla innviðaráðherra.

Ung vinstri græn taka undir orð ungliðahreyfingar Viðreisnar og Samfylkingar og fordæma þau ummæli sem Sigurður Ingi, innviðaráðherra, lét úr úr sér á nýyfirstöðnu Búnaðarþingi. Ummælin eru óafsakandi, niðrandi og rasískt og fara gegn grundvallarstefnu Ungra vinstri grænna og varpa ljósi á viðhorf sem ekki eiga erindi í íslensku samfélagi.

Þá getum við ekki heldur litið fram hjá þeirri marglaga mismunun sem í þeim felst. Því það vill svo til að framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, Vigdís Häsler, er kona. Við getum ekki samþykkt ummælin sem óheppilegt orðaval, því þau varpa óneitanlega ljósi á fordómafull viðhorf ráðherrans, sem leyfir sér að tala svona.

Við fordæmum að ráðherra í Ríkisstjórn Íslands sýni af sér svona hegðun. Það er einnig alvarlegt að aðstoðarmaður ráðherra veiti í kjölfarið rangar og villandi upplýsingar í tilraun til þess að kæfa málið og gera þannig lítið úr frásöng Vigdísar. Málið er skýrt, ráðherrann hefr gengist við því að hafa látið ummælin falla og við því eiga að vera skýrar afleiðingar.

Ljóst er að siðareglur þingmanna hafa verið brotnar og við krefjumst þess að forsætisnefnd Alþingis taki málið upp eins og lög gera ráð fyrir og úrskurði um brot ráðherrans. Við krefjumst þess að ráðherra geri grein fyrir gjörðum sínum í þingsal, axli raunverulega ábyrgð og bæti fyrir brot sitt. Það er það minnsta sem Vigdís Häslerog allir sem láta sig málið varða eiga skilið.